Vefsíða Þingeyings tekin í notkun

 In Uncategorized

RR ráðgjöf er Þingeyingum til aðstoðar við sameiningarviðræður Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Vinnuheiti verkefnisins er Þingeyingur og tekur ný vefsíða verkefnisins mið af því heiti. Þá byggir útlit síðunnar á auðkennismerki verkefnisins.  Hönnunarstofa Geimstofan á Akureyri sá um hönnunina en merkið myndar stafinn Þ og er tenging við náttúruna. Línur mynda foss og sólarupprás speglast í vatni. Litir eru tenging í sveitarfélögin og náttúruna.

Á síðunni thingeyingur.is munum við miðla upplýsingum um framgang verkefnisins, en ritstjóri er Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna undirbýr tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til afgreiðslu sveitarstjórna og í kjölfarið atkvæðagreiðslu meðal íbúa í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Stefnt er að því að atkvæðagreiðslan á meðal íbúa fari fram í mars 2021. Eftir næstu áramót verður boðað til íbúafunda en mikil áhersla verður á íbúasamráð í ferlinu.

Markmið samstarfsnefndarinnar er að draga upp skýra og hlutlausa mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og draga fram kosti og galla sameiningar til að auðvelda kjósendum að taka afstöðu til spurningarinnar um sameiningu. Hægt er að senda inn fyrirspurnir til samstarfsnefndarinnar í gegnum heimasíðuna.

Recent Posts