Rúm 20% sveitarfélaganna í landinu ræða sameiningar með nýjum og breyttum forsendum

 In Uncategorized

Fimmtán sveitarfélög, eða rúm 20% sveitarfélaganna í landinu, hafa ákveðið að hefja viðræður um mögulega sameiningu við nágranna sína, eða eru að klára sameiningarferli. Sveitarfélögin eru flest landstór og ná samanlagt yfir um 42% af landrými Íslands. Í þeim búa hins vegar tæp 4% íbúanna, eða rúmlega 13 þúsund manns. Samþykki íbúar sameiningartillögurnar mun sveitarfélögum fækka um 11 og verða sveitarfélögin þá 61 árið 2022. Sameining sveitarfélaga yfir stór landsvæði með fjölda byggðakjarna og mikið dreifbýli kallar á nýjar lausnir í stjórnsýslu.

Heimastjórnir tryggja valdeflingu byggðakjarna og nærsamfélagsins

Rannsóknir á sameiningum sveitarfélag hafa leitt í ljós að helsti ávinningurinn sé rekstrarhagræði sem skilar sér í aukinni þjónustu og aukinn slagkraftur samfélagsins í hagsmunabaráttu fyrir ýmsum samfélags-og byggðamálum. Jaðarbyggðir í sameinuðum sveitarfélögum hafa hins vegar stundum upplifað skerðingu á þjónustu, t.d. að skólum hafi verið lokað eða önnur þjónusta skert. Þá upplifa íbúar minni áhrif á ákvarðanatöku í stærra sveitarfélagi.

Íbúar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi samþykktu með afgerandi hætti í október að sameina sveitarfélögin í eitt. Um miðjan apríl fara fram kosningar til sveitarstjórnar nýs sveitarfélags og samhliða verður kosið um nýtt nafn á sveitarfélagið. Við undirbúning verkefnisins var litið til þess lærdóms sem fyrri sameiningar og rannsóknir á þeim hafa dregið fram. Markmiðið var að finna lausn sem tryggir aðkomu heimamanna að ákvörðunum sem varða þeirra nánasta umhverfi. Á íbúafundum kom mjög skýrt fram að íbúar vilja varðveita sérkenni síns samfélags og hafa áhrif. Á þeim grunni var hugmyndin um heimastjórnir þróuð. Heimastjórnir eru þriggja manna stjórnir sem starfa á tilteknum svæðum innan sveitarfélagsins og fara með ákveðin nærþjónustuverkefni. Til heimastjórna er kjörið beinni kosningu af íbúum þess svæðis, auk þess sem einn fulltrúi er skipaður úr sveitarstjórninni.

,,Sameining sveitarfélaga er stórt breytingaverkefni og við höfum nálgast vinnuna með þeim formerkjum. Í því felst að eiga gott samráð við íbúa, starfsfólk og kjörna fulltrúa til að skapa skilning á mikilvægi verkefnisins og sem mestri sátt. Okkar reynsla er að íbúarnir vilja tryggja ákveðna nærþjónustu eins og skóla, íþróttahús og menningarstarf á hverjum stað, auk þess að eiga fulltrúa í beinum tengslum við sveitarstjórnina. Þau vilja raunverulegt lýðræði og áhrif. Heimastjórnir koma til móts við þær óskir. Að mínu mati ætti Alþingi að skoða breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um kosningar til sveitarstjórna til að koma enn betur til móts við þessi sjónarmið.“ segir Róbert Ragnarsson framkvæmdastjóri RR ráðgjafar.

Sveitarfélögin fjögur í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið í viðræðum undanfarin tvö ár og ræða atkvæðagreiðslu um sameiningu á árinu 2021. Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur eru í viðræðum og stefna að atkvæðagreiðslu vorið 2021. Fimm sveitarfélög í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu hafa nýlega hafið óformlegar viðræður og hyggjast taka ákvörðun í júní um hvort gengið verði til atkvæðagreiðslu um sameiningu. RR ráðgjöf sinnir verkefnisstjórn og ráðgjöf í öllum verkefnunum fjórum.

RR ráðgjöf hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir faglega nálgun og ferska sýn á sameiningarvinnu, sem og góðan skilning á þessi tvö meginatriði, sem skilað hefur góðum árangri, líkt og nýlegt sameining fjögurra sveitarfélaga fyrir austan sýnir.

Recent Posts